Á fundi Fulltrúarráðs Sjómannadagsins á Hótel Borg 4. apríl 1954 var ákveðið að stofna til flokkahappdrættis og var stjórn samtakanna falið að snúa sér til stjórnvalda og æskja nauðsynlegrar fyrirgreiðslu og lagasetningar. Ennfremur var kosin fyrsta stjórn Happdrættis D.A.S. og þeir voru: Auðunn Hermannsson, Sigurjón Einarsson, Gunnar Friðriksson, Theódór Gíslason, Tómas Sigvaldason og Pétur Björnsson.
Stjórnvöld tóku málaleitan samtakanna einstaklega vel og fór þáv. forsætisráðherra Ólafur Thors fremstur í flokki. Eftir fund við hann þar sem auk Auðunns Hermannssonar og Henrý Halfdánarsonar voru mættir 10 mætir skipsstjórar og hafði forsætisráðherra að orði að fyrir þeirra tilstuðlan myndi hann fara í málið. Fljótlega var flutt stjórnarfrumvarp um málið, sem afgreitt var samdægurs í báðum deildum Alþingis í þrem umferðum. Þótti það einstakt að málið fengi slíka flýtimeðferð. Tók þetta aðeins fáeinar mínútur. Fór þetta þannig fram að Ólafur Thors lagði málið fram og óskaði eftir því að þingheimur gerði engar athugasemdir við málið. Var þá þingfundur settur og tilkynnt að eitt mál væri á dagskrá. Lauk þingfundi þá þegar. Settur aftur þingfundur og aftur tilkynnt að aðeins eitt mál væri á dagskrá. Fundi slitið. Enn og aftur var þingfundur settur og aftur tilkynnt að eitt mál væri á dagskrá. Fór atkvæðagreiðsla fram eftir hvern þingfund. Þannig urðu lög um happdrætti Dvalarheimila aldraða sjómanna að veruleika.
Fyrsti útdráttur fór fram 3. júlí 1954 og var happdrættinu úthlutað 6 bifreiðum af 9 sem fluttar voru inn til landsins á þessum skömmtunartímum. Miðarnir voru prentaðir í fánalitunum. Svo mikilvægt hefur Happdrætti D.A.S. verið í allri uppbyggingu Hrafnistu að hagnaðurinn stóð að mestu undir öllum framkvæmdum við Hrafnistu í Reykjavík og Laugarásbíó. Lögum um Happdrætti D.A.S. var breytt 1963 og því gert að greiða 40% af hagnaðinum í Byggingarsjóð aldraða. Stóð þetta í 25 ár og greiddi Happdrætti D.A.S. 900 milljónir á núvirði í þennan sjóð. Sjóðurinn var notaður í að byggja upp dvalarheimili út um land allt.
Árangur
Á þeim tæpum 70 árum sem Happdrætti D.A.S. hefur starfað hefur það greitt milljarða í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Auk þess hafa fjölmargir miðaeigendur fengið milljarða greidda í vinninga á sama tíma.
Með stuðningi fólksins í landinu með kaupum á miðum í Happdrætti D.A.S. hefur Grettistaki verið lyft við að skapa öldruðum áhyggjulaus ævikvöld með uppbyggingu Hrafnistu heimilanna.
Með miða í Happdrætti D.A.S. leggur þú þitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar og um leið átt þú von á góðum vinning(um).